Formleg opnun Náttúrustofu Norðausturlands

Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, opnaði formlega Náttúrustofu Norðausturlands í gær, 10. ágúst. Fjölmennt var á opnuninni en hún var samhliða formlegri opnun Þekkingarseturs Þingeyinga. Það var menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem opnaði Þekkingarsetrið.

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir

Opnunarathöfnin fór fram í blíðskaparveðri undir berum himni á lóð Landsbankans á Húsavík en Náttúrustofan og Þekkingarsetrið leigja efri hæð bankans undir starfsemi sína. Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarsetursins og Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofunnar, byrjuðu á því að kynna stofnanirnar og þakka þeim sem unnu að því að láta þær verða að veruleika. Næst flutti ávarp 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra en hún lagði mikið að mörkum í undirbúningi að stofnun beggja stofnana. Gunnlaugur Stefánsson, 1. varaforseti bæjarstjórnar Húsavíkurbæjar, flutti ávarp og skilaði kveðjum frá bæjarstjóra og bæjarstjórn.

Að opnunarávörpum loknum tóku til máls Guðmundur Birkir Þorkelsson, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, Jóhann Guðni Reynisson, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit og fulltrúi sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum, Árni Bragason frá Umhverfisstofnun og að lokum Snorri Baldursson og Kristinn J. Albertsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Á milli ávarpa spiluðu og sungu tveir húsvískir tónlistarmenn, þeir Guðni Bragason og Kristján Þór Magnússon. Komu þeir félagar Siv Friðleifsdóttur skemmtilega á óvart þegar þeir sungu “Happy birthday” eftir Stevie Wonder í tilefni af afmæli hennar.

Guðni og Kristján taka lagið fyrir Siv.

Eftir athöfnina var gestum boðið upp á að skoða húsnæði og kynna sér starfsemi stofnananna ásamt því að þiggja léttar veitingar.

Náttúrustofa Norðausturlands vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komið hafa að undirbúningi að stofnun hennar. Einnig vill Náttúrustofan þakka fyrir þær gjafir og árnaðaróskir sem henni hafa verið færðar í tilefni af opnuninni.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin