Sjaldséður slímsveppur á Húsavík

Þann 4. júní síðast liðinn barst Náttúrustofunni sýni til greiningar sem við fyrstu sýn virtist vera sveppur. Um var að ræða svartar kúlur sem fundist höfðu í þakskeggi á Húsavík. Þegar komið var við kúlurnar gáfu þær sig og úr þeim komu örfín svört gró.

Slimsveppur
Slímsveppurinn í þakskeggi á Húsavík

Sýnið var sent til Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands til greiningar. Reyndist um sjaldséðan slímsvepp að ræða, Amaurochaete atra (Alb. & Schwein.) Rostaf. sem í raun telst ekki til sveppa heldur frumvera. Slímsveppur þessi hefur einungis fundist tvisvar áður hér á landi, í fyrra skiptið á furu í Grundarreit í Eyjafjarðarsveit árið 1980 og það seinna á furu í Kjarnaskógi árið 2000.

Eftirfarandi upplýsingar um sveppinn fengust hjá Guðríði Gyðu:
Gróhirslur þessa slímsvepps verða allt að 2 cm á hæð og 8 cm að lengd sem telst stórt. Slímfruman sem skríður um er í fyrstu rjómagul verður síðan bleik og svo loks svört þegar gróin fara að myndast. Fruman skríður þá upp á stað þar sem gróin geta dreifst vel, s.s. hól, trjágrein eða strá. Þar stoppar hún og myndar gróhirslu. Slímsveppurinn lifir á bakteríum og álíka ögnum og er algerlega skaðlaus.

Slimsveppur1
Gró slímsveppsins Arnaurochaete atra (Alb. &Schwein.) Rostaf.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin