Dægurritar (Geolocator)

Náttúrustofan hefur á síðustu árum stundað rannsóknir á vetrarstöðvum fugla. Notaðir eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) sem eru fyrirferðalitlir gagnaritar sem festir eru á fótmerki. Þeir safna upplýsingum um staðsetningu út frá birtutíma (daglengd) og veita þannig upplýsingar um vetrarstöðvar og farhætti viðkomandi fugla. Fuglarnir eru veiddir, þeir mældir og vigtaðir og úr þeim tekið blóð og fjaðrir sem ætlað er til DNA greininga. Til að nálgast gögnin sem ritarnir safna þarf að ná fuglunum aftur að ári liðnu (eða síðar) og byggist árangur rannsóknanna á því hversu vel það gengur. Um er að ræða tímabundin verkefni.

Flórgoðar Podiceps auritus

Á árunum 2009-2012 voru dægurritar settir á íslenska flórgoða til að kanna hvert þeir færu til vetrardvalar. Rannsóknirnar fóru fram á Víkingavatni og Ástjörn í Kelduhverfi. Frumniðurstöður verkefnisins má sjá á veggspjaldi sem kynnt var á Waterbirds ráðstefnu í Annapolis, Bandaríkjunum 9.-12. nóvember 2011.

2010-08-11 032

Ritur Rissa tridactyla

Rannsóknir á vetrarstöðvum og farháttum íslenskra rita hafa staðið yfir frá árinu 2009. Rannsóknirnar tengjast m.a. alþjóðlegu samvinnuverkefni sem snýr að vetrardreifingu rita í Norður-Atlantshafi en sjá má fyrstu niðurstöður úr því verkefni hér. Settir hafa verið dægurritar á ritur í Hafnarhólma í Borgarfirði eystri, Látrabjargi, á Kjalarnesi og Brimnesi við Faxaflóa og á Hornströndum. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Náttúrustofur Austurlands, Vestfjarða og Suðvesturlands.

Fýll Fulmarus glacialis

Rannsóknir á vetrarstöðvum íslenska fýlsins hafa staðið yfir frá sumrinu 2012. Fýlar hafa verið merktir í Ærvíkurbjargi í Reykjahverfi, við Bolungarvík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Skrofa Puffinus puffinus

Frá árinu 2006 hafa staðið yfir rannsóknir á farháttum skrofa, sem verpa í Ystakletti í Vestmannaeyjum. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Jacob González-Solís frá Háskólanum í Barcelona og Náttúrustofu Suðurlands. Dægurritarnir gefa upplýsingar um farleiðir og vetrarstöðvar skrofanna í Atlantshafi.

Svartfuglar

Sumarið 2013 hóf Náttúrustofan rannsóknir á farháttum og vetrarstöðvum íslenskra svartfugla. Þrjár tegundir svartfugla, langvía (Uria aalge), stuttnefja (Uria lomvia) og álka (Alca torda), voru merktar með dægurritum í þremur byggðum – Látrabjargi, Grímsey og Fonti á Langanesi. Að auki sá Náttúrustofa Suðurlands um að merkja lunda í Grímsey, Papey og Stórhöfða á Heimaey. Verkefnið hlaut styrk úr Veiðikortasjóði.

2013-06-24 17.59.33

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin