Plast í íslenskum fýlum

Mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál sem hefur víðtæk áhrif á lífríkið. Plast er eitt af þeim efnum sem berst til sjávar í miklu magni. Þar getur það flotið um í langan tíma, brotnað smám saman niður í smærri einingar og á endanum borist upp fæðukeðjuna sem örplast, jafnvel í manninn.

Árið 2002 hófst vöktun á plasti í meltingarvegi fýla við Norðursjó á vegum OSPAR. Vöktunin byggði á hollensku verkefni sem staðið hafði yfir frá 1982 og fólst í að safna fýlum sem finnast dauðir í fjörum, kryfja þá, meta heilbrigði, dánarorsök og plastmagn. Verkefnið hefur smám saman dreifst til annarra OSPAR landa utan Norðursjávar. Íslendingar tóku fyrst þátt árið 2018 þegar Umhverfisstofnun gerði samning við Náttúrustofu Norðausturlands um greiningu á plasti í fýlum. Því hefur verið haldið áfram síðan og er nú komið fimm ára gagnasett.

Fýllinn er fallegur fugl sem lendir því miður oft í að éta plast frá manninum.

Ástæða þess að fýllinn hentar vel í vöktun á plasti í hafi er margþætt. Fýllinn aflar sér eingöngu fæðu á hafi og því má gera ráð fyrir að plast í meltingarfærum hans sé þaðan komið. Hann aflar sér fæðu af yfirborði þar sem plastið flýtur um og hann ælir ekki ómeltanlegum fæðuleifum til þess eins að losa sig við þær. Síðast talda atriðið kann sumum að þykja merkilegt þar sem fýllinn er þekktur fyrir að æla. Fýllinn ælir hins vegar aðeins sér til varnar, í nágrannaerjum og til að færa ungum fæðu, með öðrum orðum fyrst og fremst yfir varptímann. Frá hausti og fram á vor getur því plast verið að safnast upp í maga og fóarni hans. Margar aðrar fuglategundir losa sig við fæðuleifar eins og bein, skeljabrot, fiður og fleira sem meltist illa með því að æla því upp úr sér. Um leið losna þeir við plast sem þeir kunna að hafa innbyrgt og það nær því ekki að safnast upp.

Löndin við Norðursjó nota fýla sem finnast dauðir á fjörum við reglubundnar fjöruhreinsanir við sína vöktun. Hér á landi er lítið um reglubundnar fjöruhreinsanir og því hefur verið notast við fýla sem drepast í veiðarfærum hjá línubátum. Fýlunum er safnað frá mars og til enda maí. Á þeim tíma eru mestar líkur á að kynþroska fýlar við landið séu af íslenskum uppruna og plast hafi náð að safnast upp frá síðasta sumri.

Plast og fleira rusl úr maga fýls sem fannst dauður í fjöru við Norðursjó

Krufning íslenskra fýla frá árinu 2022 fór fram í Hollandi að þessu sinni. Þar eru reglulega haldnir vinnufundir þeirra sem sinna þessari vöktun í OSPAR ríkjunum. Þátttakendurnir hafa með sér fýla sem svo eru krufðir eftir kúnstarinnar reglum, aðferðafræði er stöðluð og reynslu og þekkingu miðlað. Ekki er laust við að þátttakendur frá löndum við Norðursjó líti íslensku fýlana hýru auga enda ferskir og hreinir á meðan fjörureknu fuglarnir eru skítugir, úldnir og oft að hluta étnir.

Dýpstu leyndarmál fýlsins krufin inn að beini á vinnustofu í Hollandi.

Að loknum 5 árum hafa 150 fýlar verið krufðir í þessari vöktun hér á landi og forvitnilegt að líta á niðurstöðurnar. Mikill meirihluti fýlanna (69%) var með plast. Að meðaltali voru 5,2 plasthlutir eða agnir í fýl og meðalþyngd plasts í hverjum var 0,07 g. OSPAR hefur sett sér það markmið að hlutfall þeirra fýla sem eru með meira en 0,1 g af plasti skuli vera undir 10%. Niðurstöður þessara 150 fýla gefur hlutfallið 15% eða talsvert yfir markmiði OSPAR. Í samanburði við önnur lönd þá er mjög lítið plast í íslenskum fýlum en almennt á OSPAR svæðinu er mest plast í fýlum syðst, nærri þéttbýli en það fer svo minnkandi eftir því sem norðar dregur. Sem dæmi má nefna að síðustu 5 ár hefur helmingur fýlanna í Hollandi verið með meira en 0,1 g af plasti og 94% með eitthvað plast.

Einn af íslensku fýlunum árið 2022 var með 71 plastbút í meltingarvegi sínum. Hér er plastið sýnt á millimetrapappír.

Þó gott sé að hampa samanburði þegar hann er okkur hagfelldur þá ber að hafa í huga að sýna er ekki aflað með sama hætti og samsetning ólík. Um 89% fýlanna í íslensku vöktuninni eru heilbrigðir varpfuglar sem flestir hverjir eru í mjög góðu líkamlegu ástandi á meðan þrír af hverjum fjórum fýlum sem finnst dauðir við strendur Norðursjávar eru ungfuglar. Rannsóknir hafa sýnt að ókynþroska fuglar eru með mun meira plast. Stafar það af þeirri sorglegu staðreynd að varpfuglar losa sig við plast yfir í unga á varptíma við að æla upp í þá fæðu. Plast safnast því ekki saman hjá kynþroska fuglum nema yfir veturinn. Þar sem fýllinn byrjar ekki að verpa fyrr en 8-10 ára gamall geta ungu fuglarnir því verið búnir að safna upp plasti í nokkur ár.

Samanburður á plastmagni í fýlum á nokkrum stöðum við Norður-Atlantshaf.

Þessi vöktun gengur ekki nema í góðri samvinnu við veiðimenn línubáta sem hafa aflað sýna með því að hirða fýla sem drepast í veiðarfærum og koma til Náttúrustofunnar. Vill Náttúrustofan því koma á framfæri þakklæti til þeirra sjómanna sem fært hafa henni fýla til verkefnisins. Jafnframt eru fleiri veiðimenn sem lenda í því að fá fýla í veiðarfæri hvattir til að hafa samband við Náttúrustofuna.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin