Niðurstöður vetrarfuglatalninga

Árlegar vetrarfuglatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands fór fram kringum áramótin og var þetta jafnframt í 63. skipti sem þessar talningar eiga sér stað. Nú voru talin 21 svæði á Norðausturlandi. Fjöldi fugla var 18.722 af 48 tegundum (auk ógreindra fugla og blendinga sem voru 30).

Sem fyrr kemur æðarfuglinn sterkastur út, en nú sáust 9.456 slíkir, eða rúm 50% af heildarfjölda fugla sem er nokkuð hefðbundið. Hann virðist nú vera að rétta úr kútnum eftir slaka talningu veturinn 2013-2014, t.d. sáust nú 8981 fugl umhverfis Tjörnes en í síðustu talningu voru þeir aðeins 6296 (10723 fuglar veturinn 2012-2013). Nánar má lesa um niðurstöður talningu í töflunni hér fyrir neðan.

Metfjöldi grágæsa (13), rauðhöfða (59) og skúfanda (14) sáust að þessu sinni. Einnig sást metfjöldi húsanda frá því að farið var að telja á öllum vökum Mývatns í vetrarfuglatalningu 2009. Nú voru þær 1461 en það er stór meirihuti íslenska stofnsins. Langflestar voru þær á Syðrivogum og Garðsvogi í Mývatni.

Lítið var um svartfugla í vetur. Þrjár branduglur fundust í skóginum við Laugaból í Reykjadal. Stök heiðagæs sást í Kelduhverfi en það er í fyrsta skipti sem hún sést á þessu svæði í vetrarfuglatalningum. Annars voru flækingsfuglar fremur fáir, æðarkóngar sáust í nágrenni Húsavíkur (2) og við Voladalstorfu á Tjörnesi, þrjár hvinendur á Mývatni og tvær í Kelduhverfi og loks nokkrir smáfuglar sem höfðu vetursetu á Húsavík (glóbrystingur, hettusöngvari og glókollur).

talning_2014

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur við niðurstöðum talninga en lesa má meira um þessar vetrarfuglatalningar sem og skoða niðurstöður á landsvísu aftur til 2002 á vef Náttúrufræðistofnunar. Einnig bendum við á langtímaniðurstöður talninga umhverfis Tjörnes sem sjá má á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Talningarfólk í Þingeyjarsýslum að þessu sinni voru Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Benedikt Jónasson, Birkir Fanndal, Garpur Loki Gunnarsson, Gaukur Hjartarson, Guðmundur Örn Benediktsson, Gunnar Óli Hákonarson, Gunnar Jóhannesson, Hermann Bárðarson, Jóhann Gunnarsson, Katrín Von Gunnarsdóttir, María Einarsdóttir, Sigurður Ólafsson, Snæþór Aðalsteinsson, Sólveig Illugadóttir, Svala Björgvinsdóttir, Sædís Sævarsdóttir, Sævar Guðbrandsson, Vilhjálmur Jónasson, Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson.

yk_histhist150322
Straumendur á Tjörnesi.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin