Á hverju ári heldur Umhverfisstofnun námskeið í landvörslu fyrir verðandi landverði friðlýstra svæða. Námskeiðið er að þessu sinni haldið á tímabilinu 12. febrúar – 8. mars og spannar um 100 klst. og eru nemendur 32. Hluti námskeiðsins fór fram í Skaftafelli dagana 26. febrúar – 1. mars en þar æfðu nemendur sig í náttúrutúlkun og undirbjuggu gönguferðir og aðra dagskrá fyrir gesti. Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, starfsmaður Náttúrustofunnar, kennir á námskeiðinu og tók hún nokkrar myndir í Skaftafelli. Eins og sjá má fengu nemendur og leiðbeinendur hið besta veður á námskeiðinu sem fór að miklu leyti fram utan dyra.
Það hefur verið árviss viðburður að fara með nemendur landvarðanámskeiðs í Skaftafell á þessum tíma enda aðstæður þar yfirleitt mjög góðar til útiveru. Nú bar hinsvegar svo við, í fyrsta skipti á landvarðanámskeiði, að snjór var yfir öllu svæðinu en enginn lét það á sig fá og allir skiluðu sínu með sóma.






