Fyrstu farfuglarnir

Guðmundur Örn Benediktsson fylgist með komum farfugla við Öxarfjörð og á Melrakkasléttu fyrir Náttúrustofuna á vori hverju. Að venju var fyrsti farfuglinn súla en hún sást vestan Kópaskers þann 21. janúar. Súlum fór þó lítið að fjölga fyrr en í byrjun febrúar. Þann 4. febrúar sást síðan fyrsta ritan vestur í flóanum. Fyrsti lómur í sumarbúningi sást við Kópasker 10. mars og fyrstu pör á óðali á Klapparósi í Núpasveit þann 22. mars.

Fyrsti tjaldurinn var við Kópasker þann 12. mars en fyrsti hópurinn sást ekki fyrr en 20. mars.  Fyrstu álftir virtust vera komnar í héraðið 15. mars en þá sást par á Sveltingstjörn syðst í Núpasveit og nokkrar álftir á Núpavatni og Þverá í Öxarfirði. Þann 15. mars var hettumáfur í sumarbúningi á Brunná í Öxarfirði en hópur sást þar ekki fyrr en 3. apríl.

Rauðhöfðapar sást við Kópasker þann 21. mars sem er nokkru fyrr en vanalegt er. Hópur sást þó ekki fyrr en 4. apríl á Skjálftavatni  í Kelduhverfi. Urtendur sáust síðan fyrst 23. mars á Kotatjörn við Kópasker sem einnig nokkru fyrr en verið hefur.

Þann 26. mars sáust fyrstu grágæsirnar í Öxarfirði og tveimur dögum síðar á Kópaskeri. Nokkrir skógarþrestir voru komnir á Kópasker 28. mars en lítið sást til þeirra eftir óveður fyrr en 7. apríl er ný ganga kom.

Heiðagæsir sáust fyrst við Víkingavatn í Kelduhverfi þann 29. mars og svo á Presthólum í Núpasveit 3. apríl. Þrjár skúfendur voru á Skjálftavatni 4. apríl en höfðu ekki enn sést á Kópaskeri eða Sléttu þann 11. apríl. Tveir himbrimar voru á Sléttu 6. apríl sem er óvenju snemmt. Þann sama dag sáust brandendur á Sléttu en par hafði þó sést í Leirhöfn snemma í mars. Lundinn var mættur á að Snartarstaðanúpi 6. apríl og skúmur í flóann 8. apríl. Þann sama dag sáust fyrstu flórgoðarnir, grafendurnar, stormmáfarnir og heiðlóan. Fyrsti sílamáfurinn var mættur á Lónin í Kelduhverfi þann 9. apríl.

Fágætari fuglar: Skógarsnípa var á Kópaskeri í febrúar, svartþröstur 20. mars og stari tveimur dögum síðar. Tvær vepjur voru í Leirhöfn snemma í mars og hvinandarsteggur í Neslóni 6. apríl. Á Leirhafnarvatni sást húsandarpar þann 10. apríl en ekki er vitað til að hún hafi sést þar áður. Þrír gráhegrar voru við Kópasker þann 24. mars og einn við Víkingavatn 29. mars.

201205_Island__MG_4157

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin