Vorið er á næsta leiti þrátt fyrir norðan hríð og leiðindi í veðri síðustu viku. Þó svo að hægt hafi eitthvað á komu farfugla má merkja breytingar í fuglalífinu á Húsvík og í næsta nágrenni. Þannig hefur t.d. rauðhöfðaöndum verið að fjölga. Einnig hefur grágæsum fjölgað og til merkis um það sáust fyrstu grágæsirnar á Tjörnesi þann 4. apríl sl. við Héðinshöfða og hefur síðan farið fjölgandi.
Lítið hefur enn sést af vaðfuglum utan tjaldsins sem virðist að mestu kominn og búinn að koma sér fyrir á óðulum. Stelkur sást í fjörunni við Húsavíkurhöfn um helgina en jaðrakan og hrossagaukur virðast ekki vera farnir að láta sjá sig en þessar tegundir eru farnar að sjást sunnanlands. Nokkuð er síðan lóan sást fyrst (í kringum páska) en hún sést ekki í stórum hópum hér enn.
Stari sást í Aðaldal helgina 2.-3. apríl en ekki er algengt að sá fugl sjáist hér í Þingeyjarsýslum á þessum árstíma. Algengara er að sjá hann á haustin. Ekki er vitað til þess að starar hafi orpið í Þingeyjarsýslum en svo virðist sem það sé einungis tímaspursmál hvenær af því verður. Starinn er nefnilega farinn að verpa á Akureyri og því spurning hvenær hann skelli sér austur yfir Vaðlaheiðina.
Stór ganga af skógarþröstum kom hingað til Húsavíkur og nágrennis helgina 2. – 3. apríl en áður var þó komið nokkur fjöldi skógarþrasta eins og greint var frá fyrir skömmu hér á nna.is. Svo virðist sem þá helgi hafi mikið af skógarþröstum komið til landsins því á sama tíma fjölgaði mikið þröstunum í Reykjavík.
Á Kaldbakstjörnum er fuglalífið orðið býsna fjölskrúðugt. Um helgina voru þar íslenskir varpfuglar á við stokkönd, grágæs og álft auk þriggja flækingsfuglategunda. Flækingarnir voru ljóshöfðasteggur, bleshæna og einn gráhegri. Þó svo að bleshæna sé talinn til flækingsfugla ber að geta þess að varp hennar hefur verið staðfest hér á landi síðustu ár, m.a. hér í Þingeyjarsýslum. Ljóshöfðasteggurinn er paraður kollu en óvíst er hvort um er að ræða ljóshöfðakollu eða rauðhöfðakollu. Þannig er nefnilega með þessar tvær tegundir að þær eru náskyldar, önnur amerísk (ljóshöfðinn) og hin evr-asísk (rauðhöfðinn). Kollur þessara tegunda eru mjög líkar og því erfitt að greina hvort um hvora tegundina er að ræða. Ljóshöfðasteggir koma oft hingað til lands paraðir rauðhöfðakollum en í þeim tilvikum er talið að um sé að ræða kollur (íslenskar) sem farið hafa héðan vestur um haf í vetrarfrí. Rauðhöfðar merktir á Mývatni hafa fundist við vesturströnd N-Ameríku.