Breytingar á fjölda sjófugla

Í sumar taldi Náttúrustofan fugla á föstum sniðum í Skoruvíkurbjargi sjöunda sumarið í röð, en áður hafði dr. Arnþór Garðarsson hjá Líffræðistofnun háskólans ákvarðað þessi talningarsnið og talið af þeim fjórum sinnum á tímabilinu 1986-2005. Talið er á 21 sniði í bjarginu en það er gert með því að taka myndir af sniðunum af bjargbrún og telja svo af myndunum í tölvu. Skráður er fjöldi rituhreiðra, fýlssetra og fjöldi svartfugla. Svartfuglar eru greindir til tegunda á staðnum og er hlutfallið milli tegunda reiknað upp í þann fjölda sem talinn er af myndum.

Svipaða sögu er að segja um Grímsey en þar hefur verið talið af sniðum þrisvar síðan 2009, þegar Arnþór ákvarðaði þar talningarsnið og jafnframt taldi þau. Náttúrustofan hefur séð um talningarnar síðustu tvö sumur.

Myndirnar hér að neðan sýna niðurstöður þessa talninga, en þær má stækka með því að smella á þær.

skoruvik2012
1. mynd. Meðalfjöldi sjófugla á 10 m breiðum sniðum (n=15 fyrir fýl og svartfugla, n=21 fyrir ritu) í Skoruvíkurbjargi 1986-2012, sýndur með staðalskekkju á þremur myndum.

 

grimsey_bjargfuglar
2. mynd. Vísitala af breytingu á meðalfjölda sjófugla af átta sniðum í Grímsey 2009-2012

Eins og sjá má hafa orðið töluverðar breytingará fjölda fugla í Skoruvík. Mikil fækkun hefur átt sér stað hjá öllum tegundum frá því um aldamót, nema helst hjá fýlnum. Ritan kemur langverst út en fjöldi hennar nú er um fjórðungur fjöldans þegar mest var 1994. Þróun á fjölda svartfugla er mjög misjöfn á milli tegunda. Stuttnefju hefur fækkað um rúm 70% (!) á þessu tímabili meðan að álku fjölgar lítillega. Langvíu fjölgaði mikið á 10. áratug síðustu aldar en upp úr aldamótum snarfækkaði henni aftur og er fjöldinn nú svipaður og þegar talningar hófust árið 1986.

Minna er hægt að segja um Grímsey þar sem talningar hófust þar nýlega. Svartfuglum hefur fjölgað lítillega síðan 2009, álku þó hlutfallslega mest. Fýl og ritu virðist hafa fækkað lítillega milli 2009 og 2011 en fjölgað aftur á nýliðnu sumri.

Áhugavert verður að fylgjast með breytingum komandi ára og jafnframt komast að því hvað veldur þessum breytingum en til þess þarf frekari rannsóknir á vistfræði tegundanna á varptíma sem og utan hans. Náttúrustofan hyggst á næsta ári hefja rannsóknir á vetrardreifingu íslenskra sjófugla í samstarfi við Náttúrustofu Suðurlands og Náttúrustofu Vestfjarða. Rannsóknunum er ætlað að veita mikilvæga sýn á hvar íslenskir svartfuglarnir halda sig á veturna en slíkar upplýsingar eru mikilvægar þegar kemur að því að útskýra þær stofnbreytingar sem vart verður í vöktunarrannsóknum líkt og þeim er hér hefur verið lýst. Einnig mun í vetur hefjast rannsóknaverkefni sem Náttúrustofan tekur þátt í og snýst um að rannsaka vetrarfæðu svartfugla hér við land.


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin