Náttúrustofan vinnur nú, í samstarfi við Árósaháskóla í Danmörku, að rannsóknarverkefni í grennd við Búrfellsvirkjun sunnan heiða. Rannsóknin er unnin fyrir Landsvirkjun og snýst um að kanna umferð fugla á svæðinu milli Búrfells og Búðarháls vegna hugmynda um mögulega fjölgun vindmylla á svæðinu.
Starfsmenn Náttúrustofunnar og Árósaháskóla mættu á vettvang til að undirbúa rannsóknir í gær, þann 27. mars. Það leið ekki á löngu þar til þeir ráku augun í ungan haförn sem hafði fundið sér æti á svæðinu. Sat hann í mestu makindum á jörðinni og kroppaði í ætið þar til tófa komst á snoðir um eitthvað ætilegt þarna. Þarna var kjörið tækifæri til að fylgjast með hegðun þessara tveggja rándýra og náðist m.a. myndband á síma í gegnum fjarsjá í um 1200 m. fjarlægð sem sjá má á facebook-síðu Náttúrustofunnar!
Hafernir eru sjaldséðir utan Vesturlands og Vestfjarða en þeir eiga það til að leggjast á flakk utan varptíma, þá sérstaklega ungfuglar. Þeir eru árvissir á sumum svæðum á Suðurlandi, m.a. við Þingvallavatn og Sogið, en sjaldséðari eftir því sem austar dregur. Kom það því líffræðingunum verulega á óvart að rekast á einn við jaðar hálendisins, en það var óneitanlega skemmtileg sjón!