Náttúrustofuþing

Eins og auglýst var hér á heimasíðunni var haldið Náttúrustofuþing á Húsavík þann 4. nóvember sl. Var þingið haldið í tengslum við ársfund Samtaka náttúrustofa. Þingið var haldið í Hvalasafninu og þótti takast vel enda áhugaverð erindi sem flutt voru og fjörugar umræður.

Fundarstjórn var í höndum Reinhards Reynissonar, bæjarstjóra á Húsavík og setti hann þingið formlega. Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hélt tölu og ræddi um náttúrustofur og að því loknu var undirritaður samstarfssamningur milli Samtaka náttúrustofa og Hólaskóla. Þá voru í kjölfarið fluttir fimm fyrirlestrar.

Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, fjallaði um starfsemi náttúrustofa þar sem m.a. kom fram að á náttúrustofunum í heild starfar breið fylking sérfræðinga sem sameiginlega spannar mjög vítt fræðasvið. Einnig vakti mikla athygli skemmtileg framsetning Þorsteins á staðsetningum verkefna náttúrustofanna. Sameiginlega vinna náttúrustofurnar á landinu öllu og gaman að sjá hversu yfirgripsmikil starfsemin er á landfræðilegan mælikvarða.

Anna G. Edvardsdóttir fór yfir hugmyndir um klasasamstarf og hvernig slíku samstarfi skyldi háttað. Hún komst að því að samstarf náttúrustofanna má segja að sé einskonar klasasamstarf að grunninum til en það þurfi e.t.v. skýrari stefnumótun til þess að hámarka árangur samstarfsins.

Rögnvaldur Ólafsson frá Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands fjallaði um þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni. Hann fór yfir hugmyndir um uppbyggingu þekkingar- og háskólasetra. Í umfjöllun sinni gagnrýndi Rögnvaldur stefnu stjórnvalda í byggðamálum og færði fyrir því margvísleg rök að líta þurfi í meira mæli út fyrir „öxulveldið“ Reykjavík-Akureyri-Ísafjörður-Egilsstaðir.

Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum, fjallaði í áhugaverðu erindi um stjórnun og skipulag þjóðgarða. Einnig fór hún yfir hugmyndir um stækkun þjóðgarðsins og  þjóðgarð norðan Vatnajökuls. Í erindi sínu kom Stella m.a. inn á vöktun lífríkis innan þjóðgarða en þar gætu náttúrustofur komið að verki.

Ólafur K. Nielsen fjallaði að lokum um ástand rjúpnastofnsins og horfur. Sýndi Ólafur m.a. þróun rjúpnastofnsins undanfarna áratugi og þá uppsveiflu sem orðið hefur samfara friðun. Taldi Ólafur að veiðar hafi haft sinn þátt varðandi þróun rjúpnastofnsins og því væri mikilvægt að nýta þau stjórntæki sem fyrir hendi eru til þess að takmarka áhrifin. Þótti Ólafi ákvörðun umhverfisráðherra um að banna sölu á rjúpum, takmarka veiðitíma og boða til siðbótar meðal veiðimanna góð. Hann taldi þó að takmarka hefði mátt veiðitímann enn meira og réttast hefði verið að miða hann einungis við nóvembermánuð.

Alls sóttu um 60 manns þingið og vill Náttúrustofan koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem sýndu þessum umræðum þann áhuga.

IMG_0172
Alls mættu um 60 manns á Náttúrustofuþingið sem haldið var í sal Hvalasafnsins.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin