Náttúrustofan stóð fyrir rannsóknum á varpárangri og afföllum rjúpna sumrin 2009 og 2010. Kvenfuglar voru veiddir í net að vorlagi, á þá sett senditæki og fylgst með þeim vikulega allt sumarið. Einn þeirra fugla sem tók þátt í þessu verkefni var „Hallbjarnarstaðarjúpan“.
Hallbjarnarstaðarjúpan veiddist í net í mólendi skammt sunnan við Félagsheimilið Sólvang á Tjörnesi þann 18. maí 2009. Fallegur kvenfugl sem vó 620 grömm og samkvæmt mynstri á vængfjöðrum var hún eldri en ársgömul, þ.e. hefur komið úr eggi árið 2007 eða fyrr. Hún hefur að öllum líkindum verið byrjuð að verpa því þann 16. júní klakti hún 12 ungum úr jafnmörgum eggjum. Hafi hún hegðað sér eins og rjúpur gera flestar, þ.e. verpa einu eggi á dag og hefja sína 21 dags álegu eftir að síðasta eggi er orpið, hefur hún verpt sínu fyrsta eggi 15. maí, þremur dögum áður en hún var merkt. Sennilega hafa ungarnir 12 ekki allir komist á legg því síðast sást hún þann 10. ágúst og þá með 7 fullvaxna unga. Vikurnar tvær á undan hafði hún einnig verið með 7 unga. Þrátt fyrir nokkra leit fannst hún ekki það sem eftir var ágústmánaðar né í september. Þann 23. sept var flogið yfir Tjörnesið og upp í Mývatnssveit og hlustað eftir útvarpssendunum á rjúpunum og fannst þessi fugl ekki. Sennilega hefur hún þá verið komin á vetrarstöðvar sínar.
Næsta ár, 2010, var þessi elska mætt þann 27. apríl á sömu slóðir og hún var veidd árið áður. Hún var komin á hreiður þann 1. júní, einungis 34 metrum frá hreiðurstað sínum frá árinu áður. Að þessu sinni verpti hún 11 eggjum og klöktust öll eggin sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Hallbjarnarstaðarjúpan kom upp 13 ungum þetta sumar! Það er ekki þekkt að fleiri en einn ungi komi úr hverju eggi hjá rjúpum þannig að líklega hefur hún tekið einhverja unga í fóstur frá annarri rjúpu, með eða án samþykkis hennar. Um haustið dvaldi hún lengur en árið áður á varpstöðvum og var þar enn þegar hætt var að fylgjast með rjúpunum þann 7. september.
Ekki fannst Hallbjarnarstaðarjúpan árið 2011 þrátt fyrir að hlustað væri eftir sendingum frá senditæki hennar um vorið. Til stóð að losa hana við senditækið þar sem þessum athugunum á sumarafföllum var lokið. Hún hafði þá verið með senditækið í tvö sumur og rafhlöðurnar líklega orðnar straumlausar og því ekki ólíklegt að hún hafi verið á svæðinu þó ekki heyrðist frá henni. Á skotveiðitíma í ár (2012) var blessuð Hallbjarnastaðarjúpan vegin af skotveiðimanni í landi Sandfellshaga í Öxarfirði. Þá hefur hún verið orðin að minnsta kosti 5 ára gömul sem er mjög hár aldur hjá rjúpu. Verði skotveiðimanninum jólasteikin að góðu.
