NNA

Snoðdýr í Kelduhverfi

Að morgni skírdags (1. apríl s.l.) var skotinn refur (Alopex lagopus) á Víkingavatnsreka í Kelduhverfi. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þær hluta sakir að hér var um að ræða svokallað snoðdýr. Snoðdýr kallast refir sem eru hárlitlir og stundum hárlausir að hluta en því veldur einhvers konar smitandi sjúkdómur.

Snoðdýra er fyrst getið í heimildum á Íslandi um 1930 en líklegt er þó að þau hafi þrifist hér um aldir. Á 19 öld má finna sögur um óargadýr sem talin voru afkvæmi refa og húskatta en skott snoðdýrs minnir fremur á rófu kattarins en þykkt, loðið skott tófunnar.

Snoðdýr virðast algengari á láglendi nær ströndinni, þar sem vetur eru mildari á Íslandi og algengust eru þau á suðvesturlandi. Útbreiðslan skýrist af hárlitlum/hárlausum feldinum en þau eiga erfiðara með að komast af í mjög köldu loftslagi þar sem varmatapið er mikið. Jafnvel kemur fyrir að þau fái kalsár. Yfirleitt eru allir yrðlingar snoðdýrslæðu einnig snoðnir. Snoðdýrslæður eru frjósamari en aðrar læður og þær ná sér auðveldlega í maka. Sama er ekki að segja um snoðdýrssteggi sem virðast ekki eiga neina afgangsorku til að helga sér óðal og ná sér í maka þar sem þeir þurfa að éta meira en venjulegir refir til að halda á sér hita. Sjúkdómurinn er smitandi og snoðdýr getur smitað aðra fullorðna einstaklinga. Dánartíðni snoðdýrsyrðlinga er hærri en heilbrigðra yrðlinga. Talið er að með hlýnandi loftslagi komi snoðdýrum til með að fjölga á Íslandi.

snoddyr

snoddyr1

Heimildir:

Páll Hersteinsson (2004). Íslensk spendýr á Íslandi. Vaka-Helgafell.
Páll Hersteinsson, Guðmundur Georgsson, Stefán Aðalsteinsson og Eggert Gunnarsson (2007). The naked fox: hypotrichosis in artic foxes (Alopex lagopus). Polar Biol (2007) 30:1047-1058.

Comments are closed.