NNA

Ljósið tendrað

Fyrir ári síðan hóf Náttúrustofa Norðausturlands vöktun á fiðrildum í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Ljósgildru var komið fyrir í túnjaðri í Ási, rétt við birkiskóg. Gildran er útbúin þannig að upp úr kassa er stór trekt og sterk ljósapera er látin loga yfir trektinni. Fiðrildi sækja í ljósið og við það að fljúga á peruna detta þau í trektina og niður í kassann. Þar niðri er svæfingarefni sem svæfir fiðrildin. Gildran var tæmd vikulega og því fékkst yfirlit yfir hvaða tegundir voru á svæðinu, á hvaða tíma þær voru að fljúga og í hve miklu magni. Kveikt var á ljósgildrunni í 29 vikur í fyrra og veiddust á þeim tíma 2880 fiðrildi af 21 tegund.

Landinu hefur verið skipt upp í 10 x 10 km reiti til að kanna útbreiðslu lífvera. Fiðrildagildran er staðsett nálægt miðju eins slíks reits. Áður en fiðrildagildran var sett upp í fyrra var vitað um 14 tegundir fiðrilda í þessum reit. Í fiðrildagildruna komu hins vegar 21 tegund og þar af 11 sem ekki höfðu fundist þar áður en fjórar tegundir sem þekktar eru úr reitnum komu ekki í gildruna. Ástæða þess að svo margar nýjar tegundir fundust er einfaldlega sú að rannsóknir á útbreiðslu skordýra á Íslandi eru enn mjög takmörkaðar. Líklegt má telja að gildran eigi eftir að skila enn fleiri tegundum fyrir reitinn.

Langmest veiddist af tígulvefara en hann lifir á laufblöðum birkis og getur stundum valdið skemmdum á trjánum. Tegundir og fjöldi sem kom í gildruna árið 2007 má sjá í eftirfarandi töflu en feitletraðar eru þær tegundir sem eru nýjar fyrir reitinn:

 

Tegund

Fjöldi

Hlutfall

Epinotia solandriana Tígulvefari

1842

64,0%

Eana osseana Grasvefari

229

8,0%

Euxoa ochrogaster Brandygla

208

7,2%

Hydriomena furcata Víðifeti

155

5,4%

Acleris notana Birkivefari

149

5,2%

Dysstroma citrata Skrautfeti

136

4,7%

Eupithecia satyrata Mófeti

36

1,3%

Coleophora algidella Hærupysja

22

0,8%

Cerapteryx graminis Grasygla

22

0,8%

Entephria caesiata Klettafeti

21

0,7%

Diarsia mendica Jarðygla

17

0,6%

Xanthorhoe decoloraria Túnfeti

15

0,5%

Syngrapha interrogationis Silfurygla

7

0,2%

Epirrhoe alternata Möðrufeti

5

0,2%

Monopis laevigella Ullarmölur

4

0,1%

Bryotropha similis

3

0,1%

Rhyacia quadrangula Gráygla

3

0,1%

Autographa gamma Gammaygla

2

0,1%

Plutella xylosella Kálmölur

1

0,0%

Cochylis dubitana Flikruvefari

1

0,0%

Apotomis sororculana Skógvefari

1

0,0%

Alls

2880

100,0%

Í gær var ljósgildran sett upp á ný og verður forvitnilegt að fylgjast með hvort árið í ár verði svipað árinu í fyrra hvað varðar magn og tegundir. Búast má við að lítið veiðist til að byrja með enda flugtími flestra fiðrildategunda seinni hluta sumars. Á þessum árstíma er helst að vænta birkivefara en lífsferill hans er þannig að fullvaxið fiðrildi skríður úr púpu að hausti og lifir af veturinn. Birkivefari er af þeim sökum það fiðrildi sem venjulega sést hvað lengst fram á haustið og eins fyrst á vorin.

Comments are closed.